Verne Holdings ehf., sem hefur nú fengið heimild til að reisa nýtt gagnaver á Suðurnesjum, er skráð á Íslandi með stofnfé frá General Catalyst Partners og Novator. Félagið hefur verið að bæta við fjárfestum og hyggst fjölga þeim enn frekar. Verne Holdings ehf. er einkahlutafélag, skráð á Íslandi.

Verne á þrjú dótturfyrirtæki, Verne Global Inc., skráð í Bandaríkjunum, Verne Global Ltd., skráð í Bretlandi, og Verne Real Estate ehf., skráð á Íslandi. Verne Holdings ehf. er í eigu hóps hluthafa sem hver um sig á minnihluta í fyrirtækinu, en þeir tveir stærstu eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. eins og kemur fram í skýrslu KPMG um Verne Holding.

Teha Investments S.A.R.L. er dótturfélag Teha Holdings, LLC, dótturfélags General Catalyst Partners V, sem er meðal sjóða í umsjón General Catalyst Partners LLC, bandarísks áhættufjárfestingarfyrirtækis með yfir tvo milljarða bandaríkjadala í stýringu. Auk Novator og Teha eiga stjórnendur talsverðan hlut í fyrirtækinu. Hvorki Novator né Teha eiga meira en 40% í Verne.

Ætlun Verne er að fjármagna næstu áfanga verkefnisins með hlutafé frá nýjum fjárfestum, sem munu bætast í hóp hluthafa félagsins. Þar á meðal eru Wellcome Trust, góðgerðarsjóðurinn breski sem er orðin ráðandi aðili í verkefninu og mun fjármagna það héðan í frá.