Hagnaður Kaupþings banka eftir skatta nam 85,3 milljörðum króna á síðasta ári en nam til samanburðar 49,3 milljörðum króna á árinu 2005. Það jafngildir 57% aukningu hagnaðar. Hagnaður fyrir skatta nam 101,1 milljörðum króna.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að hagnaður hluthafa eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 18,1 milljörðum króna en nam 14,8 milljörðum kr. á sama tímabili 2005. Arðsemi eigin fjár á árinu var 42,4%.

Gengishagnaður nam 60,2 milljörðum kr. á árinu ? jókst um 61,4% miðað við árið 2005.

Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund að hluthöfum verði greiddar 10.366 milljónir króna í arð vegna ársins 2006 eða 14 krónur á hlut, sem svarar til 12,2% af hagnaði.

Hreinar vaxta- og þóknanatekjur námu 26.671,6 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi ? jukust um 69,5% miðað við sama tímabil 2005.

Rekstrartekjur námu 40,9 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2006 ? jukust um 25% miðað við sama tímabil 2005.

Heildareignir námu 4.055 milljörðum króna í lok ársins og jukust um 37,1% á föstu gengi á árinu en um 59,6% í íslenskum krónum.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans segir í tilkynningu hans: "Rekstur Kaupþings gekk sérlega vel á árinu og er þetta enn eitt met árið hjá bankanum. Flestar starfssstöðvar bankans skiluðu metafkomu og ánægjulegt er að sjá hve traustum tekjugrunni bankinn stendur á. Jákvætt er að sjá vöxt þóknanatekna og vaxtatekna á árinu og ljóst að bankinn nýtur góðs af frekari samþættingu starfsstöðva bankans. Við búumst við áframhaldandi vexti á árinu 2007 og ég er sannfærður um að sá vöxtur muni skapa enn fleiri tækifæri fyrir viðskiptavini okkar, en sem fyrr er lykilatriðið að þjóna þörfum þeirra."