Í kjölfar flugprófana í september hafa flugmálayfirvöld í Evrópusambandinu, EASA, sagt Boeing 737 Max vélarnar sem hafa verið kyrrsettar frá því á mars á síðasta ári nægilega öruggar til að fljúga á ný fyrir árslok.

EASA fer nú yfir lokadrög tilskipunar sem muni heimila flug flugvélanna sem kyrrsettar voru eftir tvö alvarleg flugslys á skömmum tíma þar sem sjálfstýribúnaður tók stjórnina af flugmönnunum með þeim afleiðingum að vélarnar steyptust til jarðar. Í flugslysunum létust 346 manns.

Í kjölfar útgáfu tilskipunarinnar munu þær liggja í samráðsgátt í fjórar vikur. Hins vegar mun þróun nýrrar hugbúnaðarlausnar fyrir nema vélarinnar sem eiga að tryggja öryggi sjálfstýribúnaðarins enn frekar mun taka 20 til 24 mánuði til viðbótar en verða uppfærð í vélunum eftir á.

„Greining okkar sýnir að vélarnar eru öruggar, og öryggismörkin eru nógu há fyrir okkur,“ hefur Bloomberg eftir Patrick Ky, forstjóra EASA, sem sér um flugöryggismál fyrir Evrópusambandið. „Það sem við höfum síðan rætt við Boeing er sú staðreynd að með þriðja mælinum, gætum við náð enn hærra öryggisstigi.“

FAA, flugmálayfirvöld Bandaríkjanna, upprunalandi Boeing vélanna, hafa verið að undirbúa að opna fyrir flug vélanna á ný en vægi evrópsku flugmálayfirvaldanna er mikið, sérstaklega í kjölfar efasemda um hæfi bandarísku stofnunarinnar í kjölfar slysanna.