Keilir á Keflavíkurflugvelli stefnir að því að flytja inn flugnema frá Kína í nýjan flugskóla á vellinum og er að stofna markaðsskrifstofu í Kína í þeim tilgangi. Vonir eru bundnar við að þetta geti orðið mjög atvinnu- og gjaldeyrisskapandi.

„Kínverjar þurfa að bæta við sig 2.000 flugmönnum á ári næstu tíu til fimmtán árin. Þeir hafa engan veginn undan að mennta þá og við sjáum þar tækifæri,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Samgöngu- og öryggisskóla hjá Keili á Keflavíkurflugvelli.

Segir hann að frumkvæðið að þessu verkefni hafi komið frá Kínverjum sjálfum, en verkefnið er unnið í náinni samvinnu við kínverska sendiráðið.

„Við erum búnir að skrifa undir samning þess efnis og erum að opna markaðsskrifstofu í Kína í þessari viku.“

Hjálmar segir að nægt framboð sé á kennslukröftum hérlendis enda þyki íslenskir flugmenn mjög góðir. Þá sé ekki síður eftirsóknarvert það veðurlag sem hér ríkir sem býður upp á þjálfun flugmanna við mjög misjafnar aðstæður.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .