*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 12. október 2018 15:01

Hyggjast opna H&M Home í Smáralind

Búsáhalda- og fataverslun H&M opnaði með pompi og prakt í dag á Hafnartorgi en næsta H&M Home opnar 9. desember.

Ritstjórn
Dirk Roennefahrt framkvæmdastjóri H&M á Íslandi og Noregi og Sigríður Lára EInarsdóttir verslunarstjóri H&M á Hafnartorgi opna nýjustu verslun félagsins.
Aðsend mynd

Í dag á slaginu 12:00 opnaði H&M verslun sína á Hafnartorgi og markaði því opnun fyrstu H&M Home á Íslandi. Lengi hefur verið beðið eftir þessari sívinsælu húsbúnaðardeild og því sannkölluð ástæða til að fagna segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Verslunarrýmið er um 2.400 fermetra og er á tveimur hæðum. Þar finna dömu – og herrafatnað, barnaföt, aukahluti og síðast en ekki síst H&M Home húsbúnaðardeild. H&M á Hafnartorgi er sú fyrsta í röð verslanna og þjónustu sem opnar á hinu glænýja Hafnartorgi.

Samtímis opnun þriðju verslunar H&M og Hafnartorgs tilkynnir H&M að verslunin færir út kvíarnar og opnar aðra H&M Home verslun í Smáralind, 9. desember næstkomandi. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því fyrir rúmu ári að fatarisinn hyggðist opna búsáhaldaverslun sína hér á landi, en eins og blaðið sagði frá fyrr í dag var þegar komin röð við verslunina í morgun.

„Það mátti heyra mikil fagnaðarlæti er verslunarstjórinn Sigríður Lára Einarsdóttir og framkvæmdarstjóri H&M á Íslandi og í Noregi, Dirk Roennefahrt, klipptu á rauða borðann,“ segir í tilkynningunni. „Inn í verslunina streymdu hundruðir gesta og hófust handa við að versla gæða tískuvörur og glæsilegar húsbúnaðarvörur frá H&M Home.“

Fyrstu þrír gestirnir sem beðið höfuð í röð fyrir utan verslunina síðan snemma morguns fengu gjafabréf að andvirði 20.000 kr., 15.000 kr. og 10.000 kr. Næstu hundrað gestirnir hlutu við komu gjafabréf að andvirði 2.000 kr.

„Þetta var frábær opnunin í alla staði og við erum himinlifandi með móttökurnar,” segir Dirk Roennefahrt framkvæmdarstjóri H&M á Íslandi og í Noregi. „Við erum stolt af því að vera þau fyrstu til að opna á svæðinu og við erum virkilega spennt að fylgjast með Hafnartorgi blómstra með frábærum verslunum og þjónustu.“

H&M á Hafnartorgi er opið alla daga vikunnar frá klukkan 10:00 til 19:00. Verslunin er staðsett á Austurbakka 2, við Lækjartorg.

Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins og Þórdís Lóa Guðnadóttir forseti borgarstjórnar opnuðu Hafnartorgið áður en verslun H&M opnaði, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá opna síðari áfangar torgsins fram til 15. febrúar.