Að sögn Ólafs Adolfssonar, lyfsala í Apóteki Vesturlands á Akranesi, er samkeppni ekki að hverfa í lyfsölu á Akranesi eins og skilja má af tilkynningu frá Lyf & heilsu fyrr í dag. Ólafur segir að lyfsölukeðjan hyggist opna lágvörulyfjaverslun undir nafni Apótekarans á Akranesi á næstunni í húsnæði þar sem keðjan hefur nú þegar innréttað lækningastofur.

,,Það er fráleitt að tala um að samkeppni sé að minnka hér á Akranesi,“ sagði Ólafur sem hefur kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna framferðis Lyfja & heilsu. Þó langt sé um liðið síðan Ólafur sendi inn kvörtun sína telur hann að niðurstaða sé að koma frá Samkeppniseftirlitinu og það sé ástæða lokunar á verslun Lyfja & heilsu. Ólafur segist sannfærður um að Lyf & heilsa verði sektuð af Samkeppniseftirlitinu.

Ólafur segist hafa farið á sinn fyrsta fund með Semkeppniseftirlitinu í apríl 2007 en sjálfur opnaði hann sína lyfjaverslun 30. júní 2007. Hann segist hafa tilkynnt til Samkeppniseftirlitsins um hin meintu samkeppnisbrot í fyrstu vikunni í júlímánuði, skömmu eftir að hann opnaði.