Heimavellir hyggjast endurfjármagna langtímaskuldir félagsins upp á allt að 12 milljarða króna, samkvæmt frétt Markaðarins .

Leigufélagið hefur nú þegar selt skuldabréf fyrir rúma 3 milljarða, en stefnt er að skráningu þeirra á næsta ári. Þar af eru 2,3 milljarðar 30 ára verðtryggð bréf með 3,65% vexti, og tæpar 900 milljónir 7 ára verðtryggð bréf með 3,2% vexti.

Sagt er að bréfin verði gefin út í tveimur flokkum, annars vegar allt að 7 milljarðar til 30 ára og hinsvegar allt að 5 milljarðar til 7 ára.

Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 37 milljörðum króna í lok síðasta ársfjórðungs, og meðalvaxtakjör verðtryggðra langtímalána voru um 4,4%.