*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 10. janúar 2018 13:01

Hyggjast sækja tollkvóta til ríkisins

Útboðsgjald á tollkvóta fyrir búvörur frá ESB hækkar, mest um 13-15%. FA segir álagningu útboðsgjalds ólöglega.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Útboðsgjald, sem innflutningsfyrirtækjum er gert að greiða fyrir tollkvóta fyrir búvörur frá ríkjum Evrópusambandsins, hækkar enn samkvæmt niðurstöðum síðasta útboðs á tollkvóta.

Mest hækkun er á tollkvóta pylsna, eða 14,7% og nautakjöts, eða 13,2%, en eini vöruflokkurinn sem útboðsgjaldið lækkar er í alifuglakjöti, þar sem meðalgjaldið á kíló fer úr 635 krónum í 620, sem er 2,2% lækkun. Segir Félag atvinnurekenda skýringuna á því vera að útboðsgjaldið sé orðið álíka hátt og kostnaðurinn við að flytja kjötið inn á fullum tolli.

Félagið áætlar að á þessu ári renni 420 milljónir úr vösum neytenda til ríkisins vegna uppboðsfyrirkomulags, sem sé ígildi verndaraðgerðar fyrir innlendan landbúnað. Ríkið hefur í tvígang á undanförnum árum verið dæmt til að endurgreiða útboðsgjald og hyggst ekki áfrýja nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar um. 

Allt stefnir í að innflytjendur láti enn á ný reyna á lögmæti útboðsgjaldsins að sögn Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA. „Fyrirtæki innan raða FA líta enn svo á að álagning útboðsgjaldsins sé ólögmæt þrátt fyrir síðustu lagabreytingar og stefna á að sækja enn og aftur endurgreiðslu gjaldanna fyrir dómi,“ segir Ólafur á vef samtakanna. 

„Það er að verða tímabært að stjórnvöld hætti þessari vitleysu og beiti sér frekar fyrir sátt um skynsamlegt fyrirkomulag á innflutningi búvara.“

Ostar ekki taldir keppinautar innlendrar framleiðslu og því úthlutað með hlutkesti

Félagið bendir á í umfjöllun um málið á heimasíðu sinni að nú sé einum vöruflokki úthlutað án útboðsgjalds, það er ostar sem njóti upprunaverndar. Þar fari úthlutunin fram með hlutkesti og hver umsækjandi fái í mesta lagi 15% af kvótanum.

Bendir félagið á að þegar þessi breyting hafi verið samþykkt að tillögu atvinnuveganefndar Alþingis hafi verið vísað í að þess konar ostar væru ekki í samkeppni við innlenda framleiðslu.„Um leið fólst í þeirri afstöðu nefndarinnar viðurkenning á því að uppboð á tollkvóta sé í raun verndaraðgerð fyrir innlendan landbúnað, en ríkið hefur löngum þrætt fyrir það,“ segir Ólafur. 

„Þessi breyting sýnir hins vegar að það er hægt að úthluta tollkvótanum með öðrum aðferðum en uppboði og það hlýtur að vera grundvöllur fyrir umræðu um breytingar. FA hefur bent á aðrar leiðir sem eru hagstæðari bæði fyrir neytendur og innflytjendur.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is