*

mánudagur, 26. október 2020
Erlent 27. júní 2019 12:29

Hyggjast segja upp 12.000 manns

Ford stefnir á að segja upp tæplega 20% af starfsmönnum sínum í Evrópu fyrir lok næsta árs.

Ritstjórn
Jim Hackett, forstjóri Ford.
epa

Bandaríski bílaframleiðandinn Ford greindi frá því í dag að fyrirtækið þurfi að fækka starfsfólki sínu um 12.000 fyrir lok árs 2020. Samkvæmt frétt Reuters eru aðgerðirnar liður í því að gera starfsemi fyrirtækisins í Evrópu arðbæra á nýjan leik en bílaiðnaðurinn hefur átt í töluverðum vandræðum á síðustu misserum sem hafa litast af staðnaðri eftirspurn auk mikilla fjárfestinga við að framleiða bíla með lítinn útblástur. 

Þetta eru þó ekki einu áskoranir fyrirtækisins því fjárfestingar við framleiðslu á rafmagns-, tvinn- og sjálfkeyrandi bílum auk endurskoðunar á hefðbundnum vélum til þess að standast reglugerðir um loftgæði, hafa leitt til þess að bílaframleiðendur í Evrópu hafa neyðst til að lækka fastan kostnað og straumlínulaga vöruframboð sitt.  

Samtals starfa um 65.000 manns hjá Ford í Evrópu eða hjá fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu á bílum Ford. Munu uppsagnirnar því ná til tæplega 20% af starfsfólki fyrirtækisins. 

Stikkorð: Ford