Domino‘s Pizza Group, breskur eigandi Domino‘s á Íslandi, hefur í hyggju að selja reksturinn hér á landi frá sér. Hið sama gildir um reksturinn á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri flatbökuframleiðandans.

Íslands er getið í uppgjörinu en þar kemur fram að „like-for-like“ sala hafi dregist saman um 8,2% og að sala hafi dregist saman um 1%. Ástæðurnar séu veikur markaður og samdráttur í ferðaþjónustu. Samdráttur var einnig í Noregi en vöxtur í Svíþjóð.

„Þrátt fyrir að afkoman hafi batnað er frammistaða erlendra útibúa ennþá vonbrigði. Undanfarnar sex vikur höfum við farið yfir stöðuna með ráðgjöfum og metið framtíðina fyrir reksturinn. Niðurstaðan er sú að þó að um áhugaverða markaði sé að ræða þá séum við ekki besti mögulegi eigandi þeirra,“ er haft eftir forstjóranum David Wild í tilkynningu. Því sé stefnt að því að selja reksturinn.

Domino's Pizza Group hefur sérleyfisrétt á rekstri veitingastaða undir vörumerkinu Domino's í Bretlandi, á Írlandi, í Sviss, og Liechtenstein. Auk þess á félagið ráðandi hlut í sérleyfishöfum á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Félagið keypti ríflega helmingshlut í Pizza-Pizza ehf., sérleyfishafanum hér á Íslandi, árið 2016 og bætti við hlut sinn árið 2017. Í ágúst á þessu ári eignaðist félagið þá hluti sem út af stóðu.