Viðsnúningur í rekstri LandsteinaStrengs á fyrri hluta árs og er ótvíræður árangur af aðhaldsaðgerðum að koma í ljós segir í hálfsársuppgjöri Kögunar til Kauphallarinnar. LandsteinarStrengur skilaði hagnaði á uppgjörstímabilinu en þar vegur þungt 56 mkr. söluhagnaður af hlutafé dótturfélaga. Enn er óseldur helmingur af hlut félagsins í Alpha Landsteinum Ltd. í Bretlandi, en áætlanir eru um að selja þann hluta á þriðja ársfjórðungi. Eftir taprekstur undanfarandi ára er gert ráð fyrir að fyrirtækið skili hagnaði af reglulegri starfsemi á seinni hluta þessa árs.

LandsteinarStrengur býður fyrirtækjum hugbúnaðarlausnir á sviði fjármála, þjónustu, heildsölu, dreifingar og smásölu. Fyrirtækið er stærsti framleiðandi hugbúnaðar fyrir smásöluverslun fyrir Microsoft Business Solutions viðskiptahugbúnað á heimsvísu og hefur komið sér upp alþjóðlegu neti rúmlega 100 endursöluaðila á því sviði. Framkvæmdastjóri er Sigurjón Pétursson.