Umhverfisstofnun hefur tilkynnt United Silicon um að þeir hyggist stöðva starfsemi fyrirtækisins. United Silicon hefur þar til föstudags til að koma fram með athugasemdir að því er kemur fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Þar er haft eftir Sigrúnu Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverifsstofnun, að þau hafa tilkynnt fyrirtækinu að ljósbogaofninn verði ekki ræstur á ný eftir brunann aðfaranótt föstudags, nema í samráði við Umhverfisstofnun.

Þetta þýðir þó ekki að starfsemi United Silicon verði stöðvuð til langframa. „Þetta eru ekki áform um sviptingu starfsleyfis,“ er enn fremur haft eftir Sigrúnu. Hún tekur fram að fyrirtækið vinni að því að greina vandann og bíður Umhverfisstofnun átekta um hvað sú greining leiði í ljós.