Landsbankinn mun í fyrstu kynna einkabankaþjónustu sína á nýrri skrifstofu bankans í Winnipeg sem opnuð var um helgina. Þar ætlar bankinn að ávaxta eignir viðskiptavina meðal annars með aðgangi að verðbréfamörkuðum á Íslandi og 13 öðrum Evrópumörkuðum að því er kemur fram í frétt bankans.

Fyrir rekur bankinn skrifstofu í Halifax í Nova Scotia á austurströnd Kanada sem annast fyrirtækjaráðgjöf og hefur milligöngu um lánveitingar til fyrirtækja.


Í frétt bankans kemur fram að þegar er mikill áhugi í Winnipeg á þjónustu Landsbankans en um 80 þúsund manns í borginni og nágrenni hennar eru af íslensku bergi brotnir.


Stefnt er að stofnun útibús Landsbankans í Winnipeg innan skamms og mun starfsemi hans þá verða
fjölbreyttari og falla undir lögsögu fjármálayfirvalda í Kanada.


Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, segir í tilefni af opnun skrifstofunnar í
Winnipeg í tilkynningu bankans: ?Tengsl Íslendinga við frændur sína og frænkur í Vesturheimi hafa alltaf verið góð en efnahagslegar ástæður hafa komið í veg fyrir að þau hafi blómstrað. Samskiptin hafa hingað til snúist
um sameiginlegan uppruna og sögu en ég geri mér vonir um að með opnun skrifstofunnar í dag aukist
viðskipti og þar með eflist jafnframt lifandi mennta- og menningartengsl. Ég er viss um að samskipti
Íslendinga á Íslandi og í Kanda verði í framtíð öflug, lifandi og skemmtileg.?


Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningunni: ?Landsbankinn hefur á síðustu árum
stóraukið umsvif sín erlendis og er nú svo komið að yfir helmingur tekna hans kemur erlendis frá. Með
opnun viðskiptaskrifstofu í Winnipeg erum við að kynna sömu þjónustu og við gerum í öðrum löndum,
en hér við höfðum til viðskiptavina sem af sögulegum ástæðum standa okkur nærri. Það má segja að
við séum að bjóða Íslendingum í Vesturheimi að njóta góðs af reynslu okkar og þekkingu í alþjóðlegri
fjármálastarfsemi og um leið þátttöku í uppgangi íslenskra fyrirtækja og íslensks efnahagslífs. Á sama
tíma opnum við þeim leið inn á alla helstu fjárfestingmarkaði Evrópu.?