*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 23. september 2021 11:21

Hyggst ekki tjá sig frekar um fortíðina

Kristrún Frostadóttir hyggst ekki ræða um fjármál sín „mörg ár aftur í tímann“. Heildarvirði útistandandi rétta í Kviku er 6,7 milljarðar.

Jóhann Óli Eiðsson
Kristrún Frostadóttir.
Haraldur Guðjónsson

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, hyggst ekki tjá sig frekar en hún hefur þegar gert um kauprétti sem hún naut sem starfsmaður Kviku. Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Um helgina sagði Viðskiptablaðið frá því að Skatturinn hefði sent fyrirspurnarbréf til einstaklinga sem ýmist störfuðu eða starfa ennþá hjá Kviku. Ástæðan er eldra áskriftaréttindafyrirkomulag bankans sem var komið á fót haustið 2016 og tók aðeins til æðstu stjórnenda. Nýrra kerfi hefur aftur á móti ekki verið tekið til neinnar skoðunar.

„Nú þegar lítur út fyrir að ég nái kjöri á Alþingi mun ég að sjálf­sögðu, eins og aðrir, fylgja öllum reglum varðandi hagsmunaskráningu þingmanna og gefa upp viðeigandi eignir. Þar er ekki miðað við að fólk opni sín persónulegu fjármál upp á gátt mörg ár aftur í tímann eins og ég hef verið krafin um af sumum fjölmiðlum. Þar af leiðandi hyggst ég ekki tjá mig um mín persónulegu fjármál eða viðskipti sem ég átti áður en ég hóf af­skipti af stjórnmálum,“ segir í svari Kristrúnar.

Kristrún hóf störf hjá Kviku í desember 2017 og nýttu hún og eiginmaður hennar sparifé sitt til að fjárfesta í valréttum í bankanum. Af árs- og árshlutareikningum bankans má ráða að hægt hafi verið að nýta umrædd réttindi fyrst í desember 2019, næsta skammt í desember 2020 og að lokum í desember 2021. Réttindin eru gild þar til í desember 2022. Sagðar voru fregnir af fyrirhugaðri þátttöku Kristrúnar í stjórnmálum í desember 2020.

Af nýjasta árshlutareikningi Kviku má ráða að kaupréttir að nafnvirði tæplega 296 milljón króna séu útistandandi en markaðsvirði þeirra er rúmlega 6,7 milljarðar króna miðað við gengi Kviku í dag. Þar af voru réttindi að 33,1 milljón hluta að nafnvirði gefin út í desember 2017 eða síðar en markaðsvirði þeirra er rúmlega 755 milljón krónur. Eigendur umræddra réttinda eru 114 talsins. Sé milljörðunum 6,7 deilt jafnt niður á fjölda eigenda er meðalvirði hvers og eins um 59 milljón krónur.

Áður en blaðið sagði fyrri fregnir af málinu hafði ítrekað verið reynt að ná tali af Kristrúnu, jafnt með símtölum og smáskilaboðum. Þær tilraunir reyndust árangurslausar þá.

Uppfært 12.37 Eftir birtingu fréttarinnar barst blaðamanni svar frá Kristrúnu Frostadóttur í SMS-skilaboðum. Í skilaboðum blaðamanns hafði verið spurt um „hvort og þá hve margir hlutir að nafnverði væru enn útistandandi“ af upphaflegum kauprétti. Svar oddvitans var á þá leið að hún vísaði í það sem hún hafði áður sagt Morgunblaðinu.