Forsætisráðherra mun á næsta þingi leggja fram þingsályktunartillögu um skiptingu velferðarráðuneytisins. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að ráðherra ætli, að höfðu samráði við félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra, að hefja undirbúning að breyttri skipan velferðarráðuneytis.

„Forsætisráðuneytið mun því í samráði við velferðarráðuneytið undirbúa þingsályktunartillögu sem lögð verður fyrir Alþingi sem fyrst á haustþingi 2019, 149. löggjafarþingi. Leitast verður við að halda kostnaði við breytinguna í lágmarki, til dæmis með sameiginlegri stoðþjónustu ráðuneytanna,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur: „Færa má rök fyrir því að skipting ráðuneytisins í tvö ráðuneyti, sem sinni í megindráttum verkefnum í samræmi við núverandi verkaskiptingu ráðherranna tveggja, geti stuðlað að styrkari stjórnun og markvissari forystu sem efli getu ráðuneytanna tveggja til að sinna lögbundnum verkefnum og rækja hlutverk sín á sviði stefnumótunar.“

Velferðarráðuneytið varð til árið 2011 en aðeins einn ráðherra, Guðbjartur Hannesson, hafði titil velferðarráðherra frá stofnun ráðuneytisins til ársins 2013. Frá því hafa tveir ráðherrar setið í velferðarráðuneytinu á hverjum tíma, félagsmálaráðherra, sem hefur ýmist einnig verið titlaður ráðherra húsnæðs- eða jafnréttismála, og heilbrigðisráðherra.