Jóhann Sigurður Þórarinsson frá Vestmanneyjum, sem er við það að ljúka námi sínu í master í tölvunarfræði í Svíþjóð, stefnir að því að opna svokallað skrifstofuhótel eða skrifstofuver í Vestmannaeyjum.

Það er þannig uppsett að einyrkjar og fyrirtæki geti leigt skrifstofuaðstöðu ásamt aðgangi að kaffistofu, fundarherbergi og öflugu interneti.

Þetta kemur fram á vefnum Eyjar.net en Jóhann segir að það hafi lengi verið draumur hans að flytja aftur til Vestmannaeyja með fjölskylduna. Nú þegar líður undir lok námsins ákváðu þau að láta slag standa og flytja til Eyja í sumar.

„Þegar við ákváðum að flytja til Eyja fór ég að svipast um eftir tækifærum. Þar sem ég er menntaður tölvunarfræðingur hyggst ég finna mér eitthvað við hæfi, hvort sem það er starf í Eyjum eða fjarvinna af fastalandinu,“ segir Jóhann í samtali við Eyjar.net.

Sjá nánar á Eyjar.net