Suður kóreanski bifreiðaframleiðandinn Hyundai hefur gert samning um að setja á fót bílaverksmiðju í norðvestur hluta Rússlands. Samningurinn hljóðar upp á 400 milljónir Bandaríkjadali.

Í samningnum sem gerður var við stjórnvöld á Pétursborg gerir ráð fyrir verksmiðju sem getur framleitt ríflega 100.000 bíla á ári. Ekki hefur enn verið gefið upp hvers konar bílar verða framleiddir í verksmiðjunni.

Verksmiðjan í Rússlandi er sú sjötta sem Hyundai reisir utan Suður Kóreu en fyrirtækið rekur bifreiðaverksmiðjur í Bandaríkjunum, Kína, Indlandi og Tyrklandi auka þess sem það er með verksmiðju í smíðum í Tékklandi.

Í yfirlýsingu frá Hyundai segir að fyrirtækið hafi selt rúmlega 130.000 bíla í Rússlandi á síðasta ári og af þeim séu tæplega 80.000 settir saman í verksmiðju í suður hluta landsins.

Framkvæmdir við nýju verksmiðjuna hefjast um mitt næsta ár.