Hyundai, bílaframleiðandinn hefur tilkynnt að hann muni minnka sölumarkmið sín um sex prósent í Suður Kóreu. Ástæðan er sú að hátt olíuverð hefur dregið úr bílasölu að undanförnu. Hyundai er stærsti bílaframleiðandinn í Suður Kóreu.

Markmið Hyundai verður að selja 630 þúsund bifreiðar á árinu í stað 670 þúsund sem var fyrra markmið.

Á sama tíma hefur Kia, sem er annar stærsti bílaframleiðandi í S-Kóreu, tilkynnt að þeir hyggist auka sölumarkmið um 11 prósent. Kia telur það raunhæft þar sem þeir framleiði litla og sparneytna bíla og einnig ætla þeir að kynna ný módel á árinu.

Sala á bílum, frá öllum fimm bílaframleiðendum Suður Kóreu,  minnkaði um 7,5 prósent í júní, miðað við júní í fyrra. Háu olíuverði er sem fyrr kennt um.

Sala á Hyundai féll þannig um 14,6 prósent á tímabilinu. Þrátt fyrir það jókst sala á Hyundai í Kóreu um 4,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.