Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa, hefur verið einn af æðstu starfsmönnum Alcoa, eins stærsta álframleiðanda heims, undanfarin sjö ár og á að baki nærri aldarfjórðungslangan feril í álgeiranum. Hann segist hafa fetað þessa braut fyrir algjöra tilviljun. Árið 1995 hafði Tómas nýlega hafið störf hjá verkfræðistofunni Hönnun eftir að hafa lokið framhaldsnámi í umhverfisverkfræði við Cornell háskóla. „Markaðsstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, sem þá var til, hafði látið vinna skýrslu á flutningi álvers frá Þýskalandi til Íslands. Kenneth Peterson komst í þessa skýrslu og var að velta fyrir sér að kaupa þetta álver og flytja það til Venesúela, og sótti um lóð þar. Hann skoðaði Ísland líka og ég var tiltölulega nýbyrjaður og var í teymi á verkfræðistofunni sem vann að þessu með honum.“

Aldrei barst svar frá Venesúela en samningar náðust hér heima ásamt tilskildum leyfum til að byggja álverið á Grundartanga undir merkjum Norðuráls. „Þá var ég búinn að vinna það mikið fyrir hann að hann bauð mér vinnu. Ég var einn af fyrstu starfsmönnum hans á Íslandi. Við fluttum álverið og byggðum það upp. Þetta var mikill skóli, sér í lagi þar sem verkefninu var sniðinn mjög knappur stakkur, boðleiðir voru stuttar og þarna var ég tiltölulega nýlega útskrifaður úr framhaldsnámi.“

Peterson var nokkuð áberandi í íslensku viðskiptalífi í kringum aldamótin sem eigandi Norðuráls og stór hluthafi í fjarskiptafélaginu Halló, sem síðar varð að OgVodafone. Í upphafi árs 2004 seldi Peterson álverið til Century Aluminum. Á sama tíma var Tómasi boðið að gerast forstjóri Fjarðaáls, dótturfélags Alcoa á Íslandi, sem var að hefja framkvæmdir við álver á Reyðarfirði. „Það var alveg stórkostlegur tími. Bæði að setja saman stjórnendateymið og stýra því hvernig við myndum byggja okkur upp með samfélaginu og mannauðinn,“ segir Tómas.

„Við í lykilstjórnendateyminu skoðuðum álver og vinnustaðamenningu og annað í Noregi, Kanada, Bandaríkjunum, Brasilíu og víðar og reyndum að velja það sem við töldum best. Á þessum tíma var erfitt að fá fólk til að flytja austur að vinna. Við þurftum að skara fram úr og vera öðruvísi að einhverju leyti.“ Tómas segir afar ánægjulegt að koma á Reyðarfjörð í dag, fimmtán árum eftir að verkefnið hófst enda sé fyrirtækið vel rekið og mörg spennandi verkefni sem tengist álverinu á borð við stóriðjuskólann og fjölda annarra menntunartengdra verkefna. Eins sé fyrirtækið í fararbroddi við að innleiða ýmsar nýjungar innan samsteypunnar.

Ætlaði að verða arkitekt

Þrátt fyrir að hafa verið í stjórnunarstöðum mestallan sinn starfsferil segist Tómas ekki hafa stefnt sérstaklega þangað. „Ég ætlaði alltaf að vera arkitekt en þetta þróaðist bara svona. Maður tók kannski snemma ábyrgð ef eitthvað þurfti að klárast, var með samviskusemi yfir að láta hlutina ganga upp. Einhver andi frá því að maður var í íþróttum í gamla daga, að liðið sé stærra heldur en einstaklingurinn þannig að maður reyni að nýta alla í liðinu. Maður eyðir svo miklum tíma í vinnunni að ef maður hefur ekki gaman af henni er það tímaeyðsla og maður reynir að láta sjálfum sér og öðrum líða vel um leið og maður reynir að ná árangri.“

Hann er þó óhræddur við að gera breytingar. „Ég hef sem betur fer fengið að heyra að það sé gott að vinna með mér en ég geri breytingar ef ég þarf að gera þær og hef margoft gert það. En það er vissulega oft erfiðasti hlutinn ef maður þarf að gera miklar breytingar eða segja fólki upp. En ef allir vita hver markmiðin eru og væntingarnar eru á hreinu þá skilja venjulega allir hvar þeir standa. Þannig á það líka við um mann sjálfan.“

Nánar er rætt við Tómas Má í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .