Alor var stofnað árið 2020 og vinnur að þróun og síðar framleiðslu á álrafhlöðum í náinni samvinnu við spænskt félag að nafni Albufera Energy Storage. Þau hafa þróað þessa tækni síðastliðin átta ár og fengið til þess stóra Evrópustyrki. Næsta verk er að hefja samningagerð við fyrirtæki og stofnanir um að útbúa frumgerðir sniðnar að þeirra þörfum í því skyni að hraða orkuskiptum,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, nýráðin framkvæmdastjóri Alor.

Að sögn Lindu eru kostir álrafhlaðna fjölmargir. Má þar nefna að hvorki sprengi- né eldhætta er til staðar vegna þeirra auk þess sem lausnin er hagkvæm. Síðast en ekki síst er vert að nefna að auðvelt er að endurvinna álrafhlöður og spilliefni fylgja ekki framleiðslunni.

Linda lauk laganámi frá Háskóla Íslands og hefur bæði starfað í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Nú síðast var hún staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu matvælaöryggis og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. „Að starfa í Stjórnarráðinu er mjög dýrmæt reynsla sem mun nýtast mér vel.“

Hinn nýi framkvæmdastjóri sleit barnsskónum á bænum Vatni nálægt Hofsósi þar sem foreldrar hennar reka Vesturfarasetrið, sauðfjárbú, ferðaþjónustu og Íslensku fánasaumastofuna. „Þar eru fánar saumaðir í samræmi við stranga staðla og passað upp á að reglum sé fylgt. Ég tel það góða reynslu að alast upp í kringum rekstur þar sem við hjálpuðumst öll að og gengum í þau verk sem þurfti,“ segir Linda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .