Stór skef verða stigin í átt að fullri losun fjármagnshafta ef nýtt frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál verður að veruleika. Bjarni Benediktsson kynnti frumvarpið ásamt Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra á blaðamannafundi í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu á þriðjudag.

Frumvarpið felur í sér tvö meginskref. Stærsta breytingin felst í því að við gildistöku laganna er opnað fyrir ótakmarkaða beina erlenda fjárfestingu innlendra aðila, þar á meðal fyrirtækja. Þá verður liðkað verulega fyrir fjárfestingum í erlendum gjaldeyri, m.a. í verðbréfum, peningakröfum og fasteignum.

Tveir þriðju beiðna verða óþarfar

„Við metum það svo að allt að tveir þriðju allra beiðna um undanþágur sem ratað hafa til Seðlabankans verði eftir þetta óþarfar. Þetta eru verulegar rýmkanir fyrir allan meginþorra almennings og í raun verða það aðeins hinir allra efnamestu og fjársterkustu einstaklingar í landinu sem reka sig eitthvað í þessa ramma sem hér eru teiknaðir upp,“ segir Bjarni Benediktsson og bætir við: „Við erum að færa okkur í átt að eðlilegu umhverfi aftur.“

Seinna skrefið verður tekið um áramótin þar sem m.a. verða hækkuð fjárhæðamörk til erlendra fjárfestinga og innstæðuflutningur úr landi fyrir allt að 100 milljónir króna verður heimilaður. Már Guðmundsson segir að um áramótin verði þakið varðandi innstæðuflutninga og verðbréfafjárfestingu orðið það hátt að það muni einungis hafa bindandi áhrif á hálft prósent einstaklinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .