*

miðvikudagur, 8. apríl 2020
Innlent 17. nóvember 2019 18:01

Í bólakafi í hestunum

Erna Björg Sverrisdóttir, sem tekur við nýrri stöðu aðalhagfræðings Arion banka, á hestinn Dúx sem er mikil áskorun.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr aðalhagfræðingur Arion banka, Erna Björg Sverrisdóttir, er mikil hestamanneskja líkt og öll hennar fjölskylda kynslóðum saman.
Eyþór Árnason

„Okkur í greiningardeildinni var skipt upp, þannig að sumir fóru í markaðsviðskipti, einhverjir inn á fyrirtækjasvið og inn í viðskiptabankann. Mitt hlutverk verður hins vegar að gera opinberu spárnar áfram og að taka hagtölurnar og reyna að breyta þeim í gagnlegar upplýsingar, en starfið mun án efa þróast eftir því sem fram líður,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir nýr aðalhagfræðingur Arion banka.

„Ég var upphaflega ráðin í sumarstarf í greiningardeildinni beint eftir BS-námið í hagfræði en ég var þá ekkert endilega viss um að þetta væri það sem mig langaði að vinna við. Svo um leið og ég fór að tengja hvernig námið nýtist til að skilja heiminn í kringum okkur varð þetta ótrúlega skemmtilegt og ákvað ég því að taka master í hreinni hagfræði úti í Hollandi. Upprunalega stefnan var að fara í eitthvað allt annað enda hafði mér fundist hagfræðin eitt leiðinlegasta fagið í Versló en ég vildi fara í eitthvað hagnýtt grunnnám.“

Erna Björg fór í framhaldinu í Erasmus háskólann í Rotterdam. „Námið þar var gríðarlega mikil keyrsla enda bara ársmaster þar sem þrjár annir voru teknar á einu ári. Því varð lítið úr áætlunum um að nýta mér að vera á meginlandinu til að ferðast um helgar heldur fóru þær í að vera á bókasafninu. Eitt af stóru verkefnunum í náminu var að búa til líkan fyrir hollenska hagkerfið og kynna það í seðlabankanum þar í landi sem var mjög hagnýtt þegar ég kom aftur hingað í Arion banka,“ segir Erna Björg.

„Það var líka mikill lærdómur í því að flytja út og þurfa að standa á eigin fótum, en landið er það líkt okkur að maður upplifði ekki neitt menningarsjokk þar, nema kannski að týnast í mannhafinu verandi ekki hærri en ég er í landi með hæstu meðalhæðina. Það var hins vegar mjög mikill lærdómur að kynnast ólíkum siðum og menningu fólksins alls staðar að úr heiminum sem var með mér í náminu.“

Erna Björg er með áhugamál sem er mikil skuldbinding. „Þegar ég er ekki í vinnunni er ég í bólakafi í hestunum, en svo er maður alltaf að reyna að vera rosaduglegur í ræktinni, en það mætir oft afgangi. Ég tel mér auðvitað trú um að allt umstangið í kringum hestana, djöflast með heyið og sagið og líka útreiðarnar séu ákveðin líkamsrækt. Öll fjölskyldan hefur verið í hestunum allt frá afa og ömmu en ég á þrjá hesta sjálf. Pabbi gaf mér þann yngsta í tvítugsafmælisgjöf, en hann heitir Dúx því hann kom í heiminn sama dag og ég útskrifaðist úr Verzló. Hann getur verið mikill gaur en það er fínt að hafa áskorun í bæði vinnunni og áhugamálinu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.