Reykjavíkurborg hefur höfðað dómsmál á hendur Reykjafelli ehf., Smith & Norland hf. (S&N) og Vegagerðinni til ógildingar á úrskurði kærunefndar útboðsmála sem kveðinn var upp fyrir jól, en með úrskurðinum var borginni og Vegagerðinni gert að greiða stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum um opinber innkaup. Á mánuðunum sjö síðan þá hefur borginni í fjórgang verið gert að greiða sekt fyrir brot á lögunum.

Eins og fjallað hefur verið um áður í Viðskiptablaðinu keyra umferðarljós höfuðborgarsvæðisins á búnaði og hugbúnaði frá Siemens en S&N selur og þjónustar umræddan búnað. Um langt árabil hafa búnaður og þjónusta verið keypt beint frá félaginu af borginni og er Vegagerðinni síðan sendur reikningur vegna hluta ríkisins í kaupunum, en stærri verk hafa verið boðin út. Í þau skipti sem útboð hefur farið fram hefur öðrum bjóðendum reynst örðugt að taka þátt, enda þurfa forrit og tól að geta „talað við“ það kerfi sem fyrir er.

Reykjafell kærði eitt slíkt útboð sem varðaði rammasamning um stýribúnað umferðarljósa og krafðist þess enn fremur að kaup borgarinnar, á miðlægri umferðarstýringatölvu sem keyrði á stýrikerfi Siemens, yrðu ógilt. Var því hafnað af nefndinni en talið að þegar borg og Vegagerð væru metin heildstætt hefðu kaupin verið yfir viðmiðunarmörkum. Hvorum aðila fyrir sig var því gert að greiða 850 þúsund krónur í stjórnvaldssekt.

Meira en tíu milljónir í sektir

Síðan þá hefur borgin tapað þremur málum til viðbótar fyrir nefndinni. Í fyrsta lagi varðar það kaup borgarinnar á raforku af fyrirtækjum í eigin eigu, annars vegar útboð um uppsetningu LED-götulýsingar innan borgarmarka og að endingu kaup á hleðslustaurum fyrir rafbíla. Í fyrstu tveimur málunum var lagt fyrir borgina að bjóða þjónustuna út en í því síðastnefnda var samningurinn lýstur óvirkur. Alls hefur borgin verið sektuð um ríflega tíu milljónir króna í málunum fjórum.

Þá er rétt að geta þess að í málunum sem varða raforkukaupin og LED-væðinguna hefur ekkert útboð átt sér stað heldur hefur borgin samið beint við Orku náttúrunnar (ON), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, um verkið. Útboðsskyldum aðilum er í vissum tilfellum heimilt að semja beint við fyrirtæki í sinni eigu um verk- eða þjónustukaup en það er meðal annars háð því skilyrði að 80% tekna þess fyrirtækis séu frá eiganda þess. Í tilfelli ON er hlutfallið 4%. Borgin hefur meðal annars byggt á því að „enginn fótur sé fyrir“ því heldur lúti skilyrðið að hlutfalli verkefna sem aðili sinni fyrir þann opinbera aðila sem fari með stjórn hans. Skemmst er frá því að segja að þau rök flugu ekki hátt fyrir nefndinni.

Hvað hleðslustaurana varðar þá hefur borgin óskað eftir frestun réttaráhrifa úrskurðarins, það er að ógilding samningsins muni ekki taka gildi. ON brást fyrst við með því að hætta að rukka fyrir hleðslu í staurunum en hefur nú afráðið að slökkva á þeim þannig að ekki sé unnt að brúka þá. Ekki liggur fyrir hvað borgin mun til bragðs taka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .