Sigurður Hannesson, nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að honum hafi komið mest á óvart í nýju starfi að skortur sé á gögnum sem hægt sé að vinna út frá. Sigurður er með doktorspróf í stærðfræði frá Oxford-háskóla en áður en hann hóf störf í bankageiranum hafði hann komið víða við í íslensku atvinnulífi.

„Ég er alinn upp meira og minna úti á landi, við bjuggum frá sex ára aldri á Hvanneyri í Borgarfirði og því fór vel á því að fyrsta heimsókn mín til félagsmanna SI skyldi einmitt hefjast þar, þar sem við hittum Hauk Júlíusson jarðvinnuverktaka og Ingibjörgu eiginkonu hans sem reka fyrirtækið Jörva. Það var gaman að hitta þau hjónin og rifja upp gömul kynni,“ segir Sigurður.

„Síðar flutti fjölskyldan til Bolungarvíkur og var ég þar í tvö ár, áður en ég fór í Menntaskólann á Akureyri, en á sumrin vann ég í fiskimjölsverksmiðjunni fyrir vestan. Ég vann auðvitað líka í fiski og við landbúnaðarstörf, og við malbikun á námsárunum. Meðan ég var í Háskólanum vann ég svo við forritun hjá Hafrannsóknastofnun, auk dæmatímakennslu, svo ég kynntist ágætlega helstu atvinnugreinum þjóðarinnar áður en ég hóf störf í fjármálageiranum.“

Sigurður segir að þrátt fyrir að iðnmenntuð störf séu vel launuð sé aðsóknin í námið of lítil. „Samfélagið leggur of mikla áherslu á bóknám og ég tel þá áherslu misráðna því við þurfum svo sannarlega að manna öll störf,“ segir Sigurður og nefnir Þýskaland sem dæmi um land sem horfa ætti til. „Þýskaland er framsækið á þessu sviði og hefur verk- og tækninám skipað mikinn sess í uppbyggingu hagkerfisins.“

Sigurður áréttar mikilvægi þess að við skiljum til fulls ástæður þessarar þróunar, en segir að hérlendis séu ekki til áreiðanleg gögn sem er forsenda stefnumótunar. „Í rauninni vitum við ekki af hverju fólk leitar ekki í iðn-, tækni- og raungreinanám í meira mæli. Við vitum ekki hvers vegna fólk hættir í námi eða færir sig yfir í önnur fög. Það er mikilvægt að við vinnum með yfirvöldum og bætum úr þessu, því ákvarðanir um framtíð iðn- og verkmenntunar mega ekki byggja á ágiskunum,“ segir Sigurður.

„Við sjáum þetta aftur og aftur, að gögn eru ekki til, eða ekki áreiðanleg. Við sjáum þetta líka þegar kemur að nýsköpun. Samtökin hafa skýr markmið um að Ísland verði í fremstu röð í nýsköpun í heiminum og við viljum að landið komist í efstu sætin á alþjóðlegum listum. Það er ánægjulegt að sjá Ísland verða samkeppnishæfara á þessu sviði en nú erum við í áttunda sæti. Á nokkrum sviðum vantar þó upplýsingar og það dregur okkur niður.“

Sigurður segir að vinna þurfi skipulega í að bæta úr upplýsingaskortinum. „Í raun þarf að gera stórátak í gagnaöflun til að skapa megi raunhæfar lausnir á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir á hinum ýmsu sviðum í samfélaginu,“ segir Sigurður. „Ég hef þó upplifað að það séu allir af vilja gerðir. Þetta er langtímaverkefni, en við þurfum auðvitað að gera meira.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér.