Við erum í eilífri baráttu fyrir því halda okkar sjálfstæði. Áhugi fyrir sameiningu hér í nágrenninu hefur alltaf verið mikill,“ segir Laufey Jóhannsdóttir, sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit, en sveitarfélagið er í einstakri stöðu hvað fjárhag varðar á landsvísu. Eigið fé sveitarfélagsins nemur 2,5 milljónum á hvern íbúa. Laufey segir sveitarfélagið búa að sterkum tekjustofnum, m.a. frá starfseminni á Grundartanga, álveri Norðuráls og járnblendiverksmiðju. „Helstu tekjustofnar okkar eru fasteignagjöld og nærri helmingur allra tekna sveitarfélagsins kemur þaðan,“ segir Laufey. Þetta hlutfall er óvenjulegt þegar horft er til samsetningar tekna annarra sveitarfélaga, einkum hinna stærri.

Þá eru fasteignagjöld mun minna hlutfall heildartekna eða sem nemur 5 - 15%. Laufey segir að Hvalfjarðarsveit sé farin að njóta sameiningar fjögurra hreppa sem sveitin sé samsett úr. Reksturinn sé hagkvæmari nú. „Það er komin reynsla á þetta núna og það sést augljóslega árangur af sameiningunni í rekstrinum hjá okkur. En við leggjum samt mikið upp úr því að geta boðið upp á góða þjónustu og viljum að hún sé alltaf góð, alls staðar á okkar svæði.“ Nokkrar fasteignir sveitarfélagsins, sem ekki eru í notkun, eru nú til sölu og er þar á meðal félagsheimili. Laufey segir töluverðan áhuga vera á þessum eignum og útlit sé fyrir að þær verði seldar, sem bæti fjárhagsstöðuna enn frekar.

Hvalfjarðarsveit stendur í skólabyggingu og fjármagnar hana að2/3 hluta, með peningaframlagi og afganginn með láni. Um áramótin 2008/2009 hækkaði sveitarfélagið útsvarið í 13,03% til þess að eiga meira fé svo að skuldir sem á sveitarfélaginu hvíla, sem eru tæplega 200 milljónir, verði borgaðar hratt niður.

Sjá umfjöllun um fjárhag sveitarfélaga á Vesturlandi í Viðskiptablaðinu.