Forsvarsmenn Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun í gær eins og Viðskiptablaðið greindi frá. Þetta næst stærsta flugfélag Þýskalands hefur verið nokkuð stórtækt í Íslandsflugi frá árinu 2006. Í tilkynningu frá Airberlin segir að þýska ríkið, Lufthansa og fleiri aðilar ætli að styðja rekstur flugfélagsins næstu misseri og engar breytingar verði gerðar á flugáætlun félagsins. Airberlin flýgur til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá Berlín og Dusseldorf og er með sumarflug til Íslands frá Munchen og Vínarborg. Í umfjöllun Túrista um fall þýska flugfélagsins segir að í svari félagsins við fyrirspurn Túrista komi fram að ekki hægt að gefa neinar upplýsingar um framtíð einstakra flugleiða eins og sakir standa - og eigi það einnig við um Íslandsflugið.

Í falli Airberlin gætu hins vegar reynst mikil tækifæri fyrir íslensku flugfélögin Icelandair og Wow air að því er kemur fram í greiningu Túrista. Auk Airberlin flýgur Wow air einnig milli Íslands og Berlínar allt árið um kring og fyrstu þrjá mánuði ársins 2017 nýttu 41% fleiri Íslendingar þessar áætlunarferðir en á sama tíma í fyrra. Alls fóru 2.389 Íslendingar til Berlínar á fyrsta ársfjórðungi. Hlutfall íslenskra farþega í flugvélum sem fjúga héðan til Berlíanr er því ekki mjög hátt — en það gæti þó verið tækifæri fyrir Icelandair að blanda sér á ný í baráttuna um farþega á leið milli Berlínar og Íslands — en flugfélagið flaug til Berlínar nokkur sumur fyrir efnahagsáfallið 2008.

Stærsti markaðurinn sem Airberlin myndi skilja eftir fyrir íslensku félögin eru allir þeir sem vilja fljúga á milli Berlínar og Norður-Ameríku. Airberlin flýgur frá Berlín til Los Angelsen, San Fransisco, Miami, Chicago og New York. Allar þessar fimm borgir eru hluti að leiðakerfi WOW air en Icelandair flýgur aðeins til þeirra tveggja síðastnefndu.