Þetta er búin að vera afar áhugaverð vegferð, bæði að sjá viðskiptin vaxa og fyrir-tækið samhliða því,“ segir Ólafur Viggósson, framkvæmdastjóri vöruþróunarsviðs hjá Sidekick Health. Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í stafrænum heilbrigðislaunum, hefur stækkað hratt að undanförnu en starfsmenn eru nú orðnir um níutíu talsins en voru aðeins tólf í byrjun árs 2019. Nýlega opnaði Sidekick skrifstofu í Berlín og er að opna aðra í Boston. Þunginn í starfsemi verður þó áfram á Íslandi að sögn Ólafs.

„Við vitum hver sýnin er, vitum hvert við erum að fara en erum ekkert með það grafið í stein hvernig við komumst þangað. Að vaxa með þessum hraða felur í sér miklar breytingar, bæði á uppbyggingu fyrirtækisins en líka nálgunina á verkefnið. Við erum stanslaust að læra hvað virkar best og hvernig við eigum að ryðja þessa nýju braut,“ segir Ólafur.

Sidekick, sem var stofnað árið 2014, er í dag með samninga við þrjú af fimm stærstu lyfjafyrirtækjum heims, þar á meðal Pfizer og Bayer. Virði samningsins við Pfizer nemur yfir milljarði króna og fyrirhugað er að útvíkka það samstarf út fyrir Evrópumarkað. Sidekick hefur einnig nýlega samið við eitt stærsta sjúkratryggingarfyrirtæki Bandaríkjanna, sem sjúkratryggir meira en fjórðung Bandaríkjamanna.

Stafrænu heilbrigðismeðferðirnar sem Sidekick þróar eru nýttar til að bæta útkomu hefðbundinnar lyfjagjafar auk þess að færa heilbrigðisþjónustu í auknum mæli heim til fólks í gegnum snjallsíma.

„Við stefnum ekki á að leysa núverandi heilbrigðismeðferðir af. En það er stórt gat í núverandi kerfi sem teljum okkur geta brúað. Við erum að stilla okkur upp til að vera í fararbroddi á þessum nýja markaði. Til þess að við náum að nýta okkur þá stöðu þá þurfum við að stækka og fá inn fleira fólk,“ segir Ólafur.

Heildræn nálgun leiðin til árangurs

Það sem sker Sidekick úr frá samkeppninni er heildræn nálgun á viðfangsefnið. Fyrirtækið hefur byggt upp tæknilausn (e. platform) sem hýsir ólíkar heilbrigðismeðferðir, sem taka fyrir einstaka sjúkdóma eða sjúkdómaflokka. Með þessu er hægt að nýta sömu tæknilausn við meðferð á nokkrum sjúkdómum, fremur en að áherslan sé einungis lögð á afmarkað svið.

„Það er mjög algengt að fólk er með nokkra sjúkdóma sem koma saman. Það getur verið blanda af hjartavandamálum, offituvandamálum og sykursýki. Þarna kemur okkar heildræna nálgun svo sterk inn. Við tökum á grunnþáttum eins og svefni, mataræði, hreyfingu, hugrækt, streitu ásamt smáatriðum við sjúkdómana. Á móti kemur þá verður verkefnið risastórt og því þurfum við marga sérfræðinga til að ná utan um þetta breiða svið. Við teljum að þetta sé leiðin til að ná árangri,“ segir Ólafur.

Innan raða Sidekick eru því starfsmenn með mjög breitt þekkingarsvið. Þetta hafi skapað lærdómsmenningu og -hugarfar innan fyrirtækisins og Ólafur viðurkennir að maður þurfi að vera auðmjúkur í þessu umhverfi. Hann segir að fyrirtækið hafi alltaf lagt áherslu á að ráða inn rétta fólkið sem hefur sömu sýn á heiminn.

„Þetta er nýr iðnaður sem er að fara af stað og springa út. Fólkið sem kemur inn í Sidekick þarf að vera meðvitað um að við eigum eftir að leysa fullt af vandamálum. Það á ýmislegt eftir að breytast hjá okkur og við þurfum að njóta þess að vera á þessari vegferð.“

Sidekick Health tryggði sér 20 milljóna dala fjármögnun fyrir rúmu ári síðan, eða sem nemur um 2,8 milljörðum miðað við þáverandi gengi. Hluthafar Sidekick eru erlendu vísisjóðirnir Wellington Partners og Asabys Partner ásamt Novator og Frumtak Ventures. Viðræður um nýja fjármögnun standa nú yfir og horft er til þess að fá nýja hluthafa inn.

Með þekkingu á bandaríska markaðnum

Í sumar var Steven G. Auerbach skipaður stjórnarformaður Sidekick. Auerbach hefur komið að ýmsum heilbrigðisfyrirtækjum, þar á meðal var hann forstjóri tæknifyrirtækisins Alegeus og gegndi stjórnendastöðum hjá UnitedHealth Group, ChannelPoint og Cigna. Ólafur segir að það sé afar verðmætt að fá Auerbach inn og að hann sé í raun starfandi stjórnarformaður.

„Hann vinnur mjög náið með okkur á gólfinu. Auerbach hefur á sínum ferli tekið að sér heilbrigðistæknifyrirtæki og hjálpað þeim að vaxa og blómstra. Hann hefur komið með nýja vídd inn í starfið okkar og við getum lært mikið af honum. Auerbach er einnig með gríðarlega reynslu af bandaríska markaðnum sem er mjög verðmætt fyrir okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .