Beiðni Viðskiptablaðsins um ítarlegt kostnaðarmat fyrir nýtt háskólasjúkrahús hefur ekki enn verið tekin til greina. Kostnaður við nýtt háskólasjúkrahús í Noregi, sem er talsvert minna en áformað sjúkrahús hérlendis, er 120-130 milljarðar króna.

Ingólfur Þórisson, verkefnisstjóri sjúkrahússins, hafnaði ítrekaðri beiðni blaðsins um að fá í hendur nákvæma kostnaðaráætlun frá því í febrúar 2008 og vísaði eingöngu til einnar blaðsíðu skjals á heimasíðu verkefnisins.

Í yfirlýsingu frá honum segir að heildarkostnaður við verkefnið nemi 70 milljörðum á verðlagi febrúar 2008, eða sem svarar til 76,5 milljörðum króna á verðlagi 1. maí sl. Rúmlega ársgömul kostnaðaráætlun metur kostnaðinn hins vegar 97 milljarða króna á núvirði.

Varðandi áætlunina frá því í fyrra sagði Ingólfur: „Þið fenguð þessa kostnaðaráætlun fyrir mistök.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um síðustu daga gerir kostnaðaráætlun ráð fyrir mun meiri kostnaði við byggingu nýs hátæknisjúkrahúss en þegar hefur verið kynnt.

Taka ber fram að í töflu sem Viðskiptablaðið birtir í dag, þar sem kostnaður við sjúkrahúsið er sundurliðaður eftir verkþáttum, misritaðist samtalan og á hún að vera 96,9 milljarðar króna.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .