*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 23. febrúar 2020 12:03

Í frosti hjá lífeyrissjóðunum

Heimavellir hafa þurft að minnka eignasafnið þar sem endurfjármögnunaráform hafa ekki gengið eftir.

Júlíus Þór Halldórsson
Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir nær ómögulegt að endurfjármagna félag á borð við Heimavelli án aðkomu lífeyrissjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir hafa lítið sem ekkert komið að fjármögnun leigufélagsins Heimvalla eftir skráningu þess í Kauphöllina í maí 2018 þrátt fyrir samkeppnishæf kjör og trygg veð.

Enginn af stóru sjóðunum þremur er hluthafi, á meðan þeir eiga hver um sig í öllum þremur skráðu fasteignafélögunum sem reka og leigja út atvinnuhúsnæði, sem þó er almennt talið áhættusamari fjárfesting en íbúðarhúsnæði.

„Það voru alveg væntingarnar að þeir kæmu að félaginu í meiri mæli. Ef þú ætlar að ná að endurfjármagna í einhverju magni þá einfaldlega þarftu lífeyrissjóðina með þér, svo einfalt er það. Aðrir fjárfestar ná ekki sömu stærðargráðu. Skuldabréfamarkaðurinn er bara lífeyrissjóðirnir,“ segir Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla.

Af 10 stærstu hluthöfum Heimavalla er Birta eini lífeyrissjóðurinn, með 9,7% hlut. „Auðvitað hefði það haft mikið fyrir okkur að segja ef þeir hefðu komið inn í félagið þegar það var skráð og stutt við það á skuldabréfamarkaði. Svo var hins vegar ekki. Aðkoma lífeyrissjóðanna að fjármögnun íbúðarhúsnæðis hefur verið svo til alfarið í formi sjóðfélagalána, en það hjálpar sjóðfélögum á leigumarkaði auðvitað ekki neitt þó að aðrir fái lán á lágum vöxtum til að kaupa sér íbúð. Til samanburðar eru sænskir lífeyrissjóðir stórir hluthafar í leigufélagi Fredensborg [hvers móðurfélag keypti á dögunum 10% hlut í Heimavöllum] þar í landi, og koma almennt mikið að svona rekstri þar.“

Minnka eignasafnið niður að fjármögnunargetu
Félagið – sem seldi yfir 300 eignir í fyrra – stefnir á frekari sölu á árinu, þannig að eignasafnið verði komið niður í 1.500 íbúðir fyrir árslok úr 1.637 um síðustu áramót. „Við erum að selja til að styrkja reksturinn, sem felst að hluta til í því að draga úr endurfjármögnunarþörf. Við höfum einfaldlega ekki fengið þá fjármögnun sem til hefði þurft til að rekstur margra þessara íbúða standi undir sér. Þá er lítið annað að gera en að selja þær eignir.“

Nánar er rætt við Arnar Gauta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Sjá einnig: Húsfélagarekstur arðbær tekjulind