„Gleymið öllu sem þið hafið í kollinum varðandi tvinnbíla og íhugið frekar nokkrar staðreyndir,” segir Manny Lopez ritstjóri bílaumfjöllunar hjá The Detroit News.

„Þeir kosta meira en flestir geta, eða er reiðubúnir til að borga fyrir þá.”

Lopez talar þarna ekki alveg út í loftið, því reynslan af sölu tvinnbíla (hybrid) í Bandaríkjunum á síðasta ári er ekki gæfuleg. Sala tvinnbíla féll um 51,2% í desember og í heild um 12,7% á árinu öllu samkvæmt tölum Autodata Corp.

Sem, dæmi þá nánast jafnaði salan á eldsneytisháknum Dodge Ram skúffubílnum samanlagða sölu á tvinnbílum í Bandaríkjunum á árinu 2008. Þannig seldust 245.840 Dodge Ram samanborið við 247.488 tvinnbíla.

Jafnvel salan á hinum geysi umtalaða tvinnbíl Toyota Prius féll á síðasta ári í 158.884 bíla eða um 12,3%. Á sama tíma seldust 188.045 sparneytnir Chevy Cobalt og 195.823 Ford Focus. Í heild hafa tvinnbílar náð minna en 2,5% markaðshlutdeild á Bandaríkjamarkaði.

Þá klikkir Lopez út í grein sinni með skýrum skilaboðum til bílaframleiðanda sem nú eru flestir mjög illa staddir og þessum orðum:

„Ef bílaframleiðendur eru skynsamir og vilja fylgja kröfum markaðarins, þá munu þeir smíða bíla sem fólkið vil kaupa, - ekki bíla sem aðrir segja þeim að smíða.”