Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði á Alþingi í gær að ekki mætti leggja óþarfa byrgði á þjóðina með aukinni skattheimtu.

Þetta sagði Ólöf í umræðu umræðu skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

„Aukin skattheimta gæti hreinlega haft ófyrirséðar afleiðingar á þungan heimilisrekstur,“ sagði Ólöf í ræðu sinni.

„Það þarf  að skera alla þá fitu sem við höfum safnað utan á okkur. Í góðærinu höfum við leyft okkur ýmislegt sem ekki er hægt lengur.“

Þá nefndi Ólöf atriði sem snúa að Alþingi og hinu opinbera. Hún sagði að leggja þyrfti af aðstoðarmenn þingmanna, draga úr ráðgjöfum ráðherra og kanna þyrfti hvort hægt væri að endurskipuleggja Stjórnarráðið með það fyrir augum að sameina ráðuneyti.

Þá lagði Ólöf það til að utanríkisþjónustan yrði endurskipulög sem og launakerfi ríkisins.

„Við skulum líta mjög gagnrýnum augum á stofnanir ríkisins og skera niður kostnað eins og hægt er,“ sagði Ólöf og bætti því við að draga þyrfti úr ferðalögum á vegum ríkisins auk þess sem endurskoða þyrfti hin svokölluðu eftirlaunalög.

„Ef við ætlum að leggja það á þjóðina að borga miklar skuldir, eigum við að byrja á okkur sjálfum hér og spara,“ sagði Ólöf.

Þá sagði Ólöf að um leið og kallað yrði eftir því að skoðaða verði hvað það var sem varð til þess að fall landsins varð svo mikið, þyrfti að gæta að því að það yrði á grundvelli frumkvæði og krafts sem Íslendingar myndu reisa landið upp aftur.

„Þá þurfum við það lundarfar sem í frumkvöðlum býr,“ sagði Ólöf.

„Það er nauðsynlegt að horfa til framtíðar.  Það þarf að móta stefnu um það, hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt samfélag að nýju.“

Ólöf sagði í ræðu sinni að ekki mætti gleyma þeim fjölskyldum sem munu eiga afar erfitt næstu vikur og mánuði.

„Það er nefnilega venjulegum Íslendingum sem mun blæða núna.  Eldri borgarar sem hafa tapað sparnaði eru uggandi um sinn hag.  Við horfum upp á gríðarlega háa vexti, verðbólgu og kjararýrnun.  Við sjáum framan í ófreskjuna, atvinnuleysið, sem er þegar farin að koma sér fyrir hér.“