*

þriðjudagur, 29. september 2020
Fólk 27. júní 2020 19:01

Í Harvard samhliða vinnu

Vigdís Guðjohnsen er nýráðin markaðsstjóri Skeljungs en hún hefur unnið hjá félaginu síðan árið 2011.

Alexander Giess
Vigdís Guðjohnsen, nýráðin markaðsstjóri Skeljungs.
Eyþór Árnason

Ég byrja að starfa hjá Skeljungi árið 2011 á fyrirtækjasviði sem viðskiptastjóri. Starfið þróast þannig að ég er með annan fótinn í markaðsdeildinni og tek að mér styrktarmál félagsins. Í framhaldinu fæ ég svo mikinn áhuga á samfélagsábyrgðarmálum og sæki mér nám í markaðssetningu í samfélagsábyrgð (e. cause marketing) í Harvard sem ég sinnti samhliða vinnu,“ segir Vigdís Guðjohnsen, nýráðin markaðsstjóri Skeljungs.

„Í kjölfarið á endurmenntun minni fæ ég tækifæri á að leiða stefnu Skeljungs í samfélagsábyrgð. Árið 2015 fór ég alfarið yfir á markaðssvið þar sem ég sinnti hlutverki markaðssérfræðings auk þess að leiða stefnu félagsins í samfélagsábyrgð.“

Spurð út í hvað breytist nú þegar hún gegnir stöðu markaðsstjóra, fremur en markaðssérfræðings, segir Vigdís störfin vissulega sambærileg en að ábyrgðarsvið hennar nái nú til fleiri átta. Hún segist taka við góðu búi en bætir við að alltaf sé hægt að gera betur. „Orkan er mjög sterkt vörumerki sem hefur verið brautryðjandi í ódýru eldsneyti í 25 ár og við munum halda áfram að einbeita okkur að því. Mesta breytingin sem er í vændum tengist smásöluverkefnum þar sem við erum nú með vörumerkin 10-11, Kvikk og Extra og þarf að mynda markaðsstefnu í kringum þá starfsemi.“

Að auki þarf Skeljungur að bregðast við minni eftirspurn eldsneytis, enda ljóst að vistvænni valmöguleikar muni sækja í sig veðrið á næstkomandi árum. „Skeljungur mun svara minni eftirspurn eftir eldsneyti annars vegar með aukinni áherslu á smásölu og hins vegar með því að bjóða upp á umhverfisvæna eldsneytisgjafa.

Sem dæmi erum við með fjölorkustöð á Miklubraut þar sem hægt er að fá umhverfisvæna eldsneytisgjafa en í heildina eru tíu stöðvar sem bjóða upp á rafmagn. Í framtíðinni tel ég að orkustöðvar geti haldið velli þar sem þær geta boðið upp á hraðari hleðslu en hleðslustöðvar á heimilum,“ segir Vigdís en bætir við að þróunin er auðvitað háð tækniframförum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.