Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningu frá félaginu að ótryggt efnahagsástand í heiminum og gríðarlegar hækkanir á flugvélaeldsneyti að undanförnu breyti rekstrarforsendum Icelandair.

„Þessar erfiðu ytri aðstæður hafa áhrif á starfsemi Icelandair og því grípum við strax til aðgerða til að styrkja fyrirtækið og treysta afkomu þess," segir Birkir en í morgun var tilkynnt um umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir félagsins .

„Við gerum ráð fyrir að eftirspurn muni minnka þegar líður á árið og því munum við fækka ferðum í áætlunarflugi næsta vetur. Samdráttur í flugi leiðir óhjákvæmilega af sér fækkun starfsmanna. Við kappkostum að halda slíkum samdrætti í lágmarki og vinnum ötullega að því að verja tekjuöflun fyrirtækisins til þess að tryggja vöxt þess til framtíðar", segir Birkir.

Hann segir erfitt að sjá að baki góðum samstarfsmönnum og vinum og frábæru starfsfólki.

„Icelandair hefur í harðri samkeppni byggt árangur sinn á þekkingu og samheldni starfsfólksins. Fyrir vikið erum við í fremstu röð alþjóðlegra flugfélaga og höfum mjög sterka stöðu hér á Íslandi. Þegar móti blæs í rekstrinum reynir á þetta sem aldrei fyrr. Ég treysti því að þekking og reynsla starfsmanna og sá samtakavilji sem hefur alla tíð verið undirstaða Icelandair verði mesti styrkur þess nú. Ég óska því góða fólki sem fer frá okkur nú alls hins besta", segir Birkir.

„Í heild eru þetta aðgerðir sem við erum sannfærð um að styrkja Icelandair til framtíðar", segir Birkir.

„Við höfum áður sýnt að með því að bregðast hratt við ytri áföllum þá eflum við starfsemina þegar til lengri tíma er litið. Sveigjanleiki er einn af lykilstyrkleikum fyrirtækisins og við munum halda áfram að þróa og bæta fyrirtækið þannig að það geti áfram boðið upp á góða og verðmæta þjónustu í flugi milli Íslands og annarra landa", segir Birkir Hólm Guðnason í tilkynningu frá félaginu.