Íslenska fjárfestingafélagið I-Holding ehf. Hefur samþykkt að kaupa 80% hlut í ILLUMS verslunarhúsinu við götuna Strikið í Kaupmannahöfn, segir í tilkynningu frá félaginu.

I-Holding samanstendur af Baugi Group, Straumi fjárfestingabanka og B2B Holding, en sami hópur keypti eigendur dönsku stórverslunarinnar Magasin du Nord, Wessel & Vett, og þar með 20% hlut í ILLUM, segir í tilkynningunni.

Straumur fjárfestingabanki og B.R.F sáu um fjármögnun yfirtökunnar. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.

Bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch hefur samþykkt að selja I-Holding 80% af ILLUM. ?Nýir stjórnendur Illum undir eignarhaldi Merril Lynch, settu sér skýrar áætlanir og markmið á síðasta fjárhagsári og tryggðu hagnað á rekstri ILLUM á ný. Reksturinn gekk vel á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2005/2006 og jókst heildarsala um rúmlega 11%," segir í tilkynningunni.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs á Norðurlöndum, segir, ?Við teljum danska smásölumarkaðinn vera í vexti og höfum mikla trú á möguleikum ILLUM sem vöruhúsi í fremstu röð með vel þekkt vörumerki." Hann segir vöruhúsin ILLUM og Magasin verða rekin sem sjálfstæð fyrirtæki, með sjálfstæð stjórnendateymi og stefnu.