Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins hefur skilað af sér skýrslu um möguleika þess að starfrækja alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi og voru niðurstöðurnar kynntar á ráðstefnu sem Forsætisráðuneytið stóð fyrir í dag.

Á ráðstefnunni sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra að hann væri opin fyrir mörgum af þeim hugmyndum sem væru settar fram í skýrslunni enda væru þær til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands í alþjóðasamfélaginu. Þá sagði Geir að ríkisstjórnin hafi nú þegar kynnt sér efni skýrslunnar ítarlega og að nefnd á vegum nokkurra ráðuneyta skoði nú málið í víðara samhengi. Geir sagðist telja að þróun Íslands í átt aðalþjóðlegri fjármálamiðstöð komi til með að stuðla að auknum lífsgæðum almennings í landinu.  Að lokum sagði Geir að nauðsynlegt væri að setja markið hátt enda væri það svo í kapphlaupi sem og öðru að þeir vinna sem hlaupa hraðast.

Ísland þarfnast nýrra tekjustrauma

Á ráðstefnunni flutti  Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka og formaður nefndarinnar erindi sem bar heitið: Ísland þarfnast nýrra tekjustrauma. Í erindi Sigurðar kom fram að hann teldi mikilvægt að huga að því að í samkeppni þjóðanna eru það fjármálakerfin sem ráða ríkjum og skera um hver er sigurvegari. Sigurður taldi að Ísland hafi staðið sig vel í þessum efnum framan af en að nú væri kominn tími til að stíga einu skrefi lengra. Sigurður fór yfir í stuttu máli hversu mikið og hratt fjármálastarfsemi hefur vaxið á undanförunum árum og tók sem dæmi að árið 1999 hafi fjármálageirinn skilað innan við milljarði í skatttekjur en ætla megi að sama upphæð fyrir þetta ár verði 13 milljaðrar króna sem er upphæð sem dugir til að borga öll úttgjöld ríkissins vegna háskólastigsins.

Sigurður sagði að nefndin hefði verið einróma sammála um það að nauðsynlegt væri að skoða þá möguleika og hugmyndir sem fyrir liggja um að auka veg og vöxt fjármálageirans á Íslandi þar sem slíkt myndi auka tekjustraum Íslands verulega á komandi árum. "Íslendingar eru orðnir vanir því að vera meðal þeirra sem hafa mestar tekjur í veröldinni, það er hinsvegar ekki eitthvað sem er náttúrulögmál sem aldrei breytist. Við þurfum að tryggja að svo verði áfram með skýrum aðgerðum," sagði Sigðurður.

"Möguleikarnir eru margir og með litlum tilkostnaði getum við öðlast mikinn ávinning." sagði Sigurður sem jafnramt ítrekaði að næsta skref væri í höndum stjórnvalda.

Lífeyrissjóðamiðstöðin Ísland

Þá voru á ráðstefnunni nokkur einstök atriði skýrslunnar kynnt. Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur kynnti hugmyndir um að gera Ísland að alþjóðlegri lífeyrismiðstöð. Hulda Dóra Styrmisdóttir talaði um alþjóðlega sameignarsjóði. Halldór Benjamín Þorbergsson kynnti hugmyndir nefndarinnar um að koma á fót stiglækkandi skattkerfi fyrir fyrirtæki sem miðast við að skattlagning fyrirtækja minnkar eftir því sem hagnaður þeirra eykst. Þá kynntu Katrín Ólafsdóttir Lektor og Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri SBV hugmyndir nefndarinnar um hvernig mögulegt væri að laða auðmenn og sérsfræðinga til landsins og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að íslenskir auðmenn færu úr landi brott með tekjur sínar.

Allir sem tóku til máls á ráðstefnunni voru sammála um að aukin alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi kæmi til með að hafa í för með sér mikinn virðisauka og margfeldisáhrif inn í hagkerfið.

Meiri peningar í vasann

Þá tóku Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Jón Sigurðsson iðnaðar -og viðskiptaráðherra og Hannes Smárason forstjóri FL Group þátt í pallborðsumræðum. Aðspurð hvort þau teldu að þessar hugmyndir um alþjóðlega fjármálamiðstöð á Íslandi  raunhæfar svaraði Halla að hún sæji ekkert því til fyrirstöðu að undanskildu menntakerfinu sem þyrfti að bjóða upp á alþjóðlega menntun fyrir börn erlendra sérfræðinga sem hingað kæmu. Þá sagði Halla einnig að hún hefði áhyggjur af viðhorfi Íslendinga til útlendinga í ljósi umræðna síðustu daga í þjóðfélaginu. Jón sagðist telja að allt væri þetta raunhæft en að mikilvægt væri að nota fleiri mælikvarða á árangur en tekjustrauma. "Við þurfum einnig að horfa til þekkingarstrauma og almannahagsmuna.," sagði Jón. Það mikilvægasta í þessum hugmyndum að mínu mati eru umræður um skattalækkanir, "sagði Hannes Smárason, "því þegar allt kemur til alls þá skiptir það fólk og fyrirtæki mestu máli hversu mikla peninga þau fá í vasann," sagði hann.