Í kringum tíu óskuldbindandi tilboð bárust í kjölfestuhlut í Högum. Félagið er nú í eigu Arion banka. Frestur til að skila kauptilboði í félagið rann út síðastliðinn mánudag.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka er áhugi á Högum bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Hagar er stærsta smásölufyrirtæki landsins.

Í næstu viku verður tekin ákvörðun um næstu skref söluferlisins og því haldið áfram með vænlegum kaupendum. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka er stefnt að því að ljúka sölunni um næstu áramót.

Bankinn heldur um 99,5% hlut í félaginu. Í tilkynningu frá því í október segir að fyrsta skref bankans verði að bjóða til sölu kjölfestuhlut í félaginu, 15-29%, í því skyni að fá til liðs við félagið fjárfesti sem muni veita félaginu forystu til lengri tíma. Segir að bankinn muni þó taka til skoðunar öll tilboð sem bankanum berist í eignarhlut sinn í félaginu.