„Ég held að orð mín eigi fullkomlega rétt á sér miðað við þessar árásir sem við höfum þurft að þola, bæði verkalýðshreyfingin í sjálfu sér og líka við nýja fólkið í framvarðarsveit hreyfingarinnar. Umræðan hefur verið á algerum villigötum, okkar kröfugerðir eru ekki einungis raunhæfar heldur líka mjög ábyrgar, enda erum við að sækja mestu kjarabæturnar í gegnum skattkerfið og kerfisbreytingar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR en Viðskiptablaðið sagði frá ummælum hans á Facebook.

„Við ætluðum að birta kostnaðarútreikninga okkar á bak við kröfugerðina í síðustu viku á fyrsta fundinum með SA, en einmitt út af orðræðunni sem hefur verið í samfélaginu ákváðum við að staldra aðeins við. Ekki vegna þess að við erum hræddir við að birta útreikninga okkar, heldur vegna þess að við ákváðum að breyta um taktík gagnvart okkar viðsemjendum.

Við krossreiknuðum okkar mat á forsendum fyrir því svigrúmi sem er í hagkerfinu og fengum út þær krónutöluhækkanir sem við leggjum út með. Ég hafna kostnaðarútreikningum ykkar á Viðskiptablaðinu og fleiri aðila sem miða við að við séum að fara fram á 112% hækkun launa sem er algerlega fráleitt miðað við sem við höfum reiknað.“

Eins og þekkt er hefur löngum tekist á innan verkalýðsfélaganna áherslumunur um hvort hækka eigi lægstu laun eða tryggja að í samanburði skili menntun sér í hærri launum. „Ég ætla ekki að tala fyrir aðra viðsemjendur eða stéttarfélög, mér dettur það ekki til hugar, en hins vegar myndi ég vilja vinda ofan af þeirri misskiptingu sem prósentuhækkanir hafa alið á í gegnum tíðina. Þó að hlutfallslega sé einhver hópur að fá svipað mikla prósentuhækkun og annar, þá er því mjög misskipt í krónum talið,“ segir Ragnar Þór.

„Krónutöluhækkun mun koma best við þá sem eru í lægstu tekjustigunum en kannski hlutfallslega verst fyrir þá sem eru í þeim hæstu. En aðalatriðið er að í krónum talið eru allir að fá jafnt, og það er það sem skiptir máli þegar verið er að kaupa nauðsynjavörur og eldsneyti. Það fá allir það sama fyrir krónurnar og það er jöfnuður í því.“

Ragnar segir að ekki ætti að koma á óvart að í útreikningum sínum um svigrúm til launahækkana í efnahagslífinu sé VR nokkuð fyrir ofan mat opinberra aðila. „Ég veit ekki hvernig Starfsgreinasambandið kostnaðarmat sínar kröfur en þegar við gerðum það fyrir okkar kröfur þá reiknuðum við út það svigrúm sem við teljum að hagkerfið hafi, tökum mið af launaveltunni og auðvitað líka mið af tekjudreifingu í okkar félagatali. Þá erum við með svigrúmið í krónum talið og deilum því niður á fjöldann. Þannig fáum við þessa niðurstöðu sem við getum rökstutt ágætlega,“ segir Ragnar Þór.

„Seðlabankinn hefur talað um svigrúm upp á 4,2% og ríkið gerði ráð fyrir 6% í tekjuhlið fjárlaga og svo hefur atvinnulífið talað undir rós um að það sé nálægt svigrúmi Seðlabankans. Við erum fyrir ofan mat ríkissjóðs miðað við hækkun á launavísitölu en við ætlumst þá líka til þess að þetta dæmi gangi upp að þá sé krónutöluhækkun lægstu launa ekki breytt yfir í prósentur og sú hækkun látin ganga yfir toppana.

Ef við miðum til dæmis við 4,2% og notum sem skurðpunkt þá sem eru með milljón á mánuði þá er hækkunin 42 þúsund krónur. Þá fengju allir sem eru með laun þar fyrir neðan 42 þúsund krónur og allir þar fyrir ofan 42 þúsund krónur, þó við séum hlutfallslega að gera best fyrir lágtekjuhópana.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .