Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,12% og er 6.322 stig við lok markaðar, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni. Veltan nemur 13 milljörðum króna.

Teymi hf. var skráð í Kauphöll Íslands í morgun. Undir merkjum þess starfa Vodafone, Securitas, Kögun, Skýrr og EJS. Við það yfirtók 365 hf. skráningu Dagsbrúnar í Kauphöllinni og nafni þess breytt.

Gengi 365 hefur lækkað um 7,86% frá því að markaðir lokuðu á fimmtudag en viðskipti voru stöðvuð með bréf Dagsbrúnar á föstudag vegna skipta á hlutabréfum Dagsbrúnar fyrir hlutabréf í 365 (áður Dagsbrún) og Teymi.

Um er að ræða 18 viðskipti sem nema samtals rúmum 39 milljónum króna. Markaðsvirði félagsins er um 13,9 milljarðar króna.

Það voru 14 viðskipti með Teymi sem námu samtals um 16 milljónum króna. Gengi félagsins við lok dags er 4,5. Hæsta gengið nam 4,57 og lægsta 4,5. Markaðvirði félagsins er 12,36 milljarðar króna.

Atorka Group hækkaði um 0,31% og er eina félagið sem hækkaði í dag.

365 lækkaði um 7,86%, Kaupþing banki lækkaði um 2,47%, Landsbankinn lækkaði um 1,48%, Alfesca lækkaði um 0,98% og Mosaic Fashions lækkaði um 0,59%.

Gengi krónu veiktist um 0,53% og er 124,5 stig, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.