Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði í dag um 1,1% og var við lok markaða 3.968 stig samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Þetta er í fyrsta skipti í um 40 mánuði sem Úrvalsvísitalan lokar undir 4.000 stigum. Um klukkan 10:40 í dag fór vísitalan niður fyrir 4.000 stig og fór ekkert upp fyrir þann múr aftur. Hlutabréf höfðu þá hækkað örlítið við opnun markaða en lækkuðu nokkuð hratt eftir kl. 10:30 í morgun.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Eimskip [ HFEIM ] hækkaði nokkuð hratt í morgun og hafði þegar best lét hækkað um rúm 11% eftir að tilkynnt var að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson myndu gangast í ábyrgð fyrir mögulegum skuldum félagsins.

Eimskipafélagið hefur engu að síður lækkað um 26,8% síðastliðna viku.

Velta með hlutabréf var um 4,9 milljarðar. Þar af var um helmingur með bréf í Kaupþing [ KAUP ] eða rúmir 2,4 milljarðar.

Þá var velta fyrir um milljarð króna með bréf í Landsbankanum [ LAIS ], um 650 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ] og tæpar 550 milljónir með bréf í Glitni en nokkuð minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur nú styrkst um 0,7% frá því í morgun og er gengisvísitalan 167,9 stig. Krónan hefur flökt nokkuð í kringum núllið í dag. Um tíma náði gengisvísitalan rúmum 170 stigum sem er það hæsta sem hún hefur nokkurn tímann náð. Gjaldeyrismarkaðir eru þó enn opnir.