Úrvalsvísitalan hækkaði í dag um 3,3% og stóð við lok markaða í 4.189 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 5,3% á föstudag og hækkaði á ný strax við opnun í morgun hreyfðist lítið eftir það.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga.

Lengi fram eftir degi leiddi Exista hækkanir dagsins og hækkaði um tíma um 12%. Í lok dags var það hins vegar Atlantic Patroleum sem hækkaði mest allra félaga eða um 11,3% en félagið hóf í morgun að vinna olíu á Chestnut svæðinu.

Aðeins eitt félag, Alfesca lækkaði í dag.

Velta með hlutabréf var um 40,6 milljarðar en þar af voru um 29,3 milljarðar með bréf í Kaupþing. Eins og áður hefur komið fram seldi Kaupþing um 5% í félaginu í morgun á 25 milljarða auk þess að kaupa eigin bréf á tæpa 3 milljarða.

Þá var velta upp á rúma 7,6 milljarða með bréf í Glitni, tæpir 2,2 milljarðar með bréf í Landsbankanum, um 615 milljónir með bréf í Straum og um 360 milljónir með bréf í Exista en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur nú veikst snögglega um 1,5% en fram eftir degi hafði hún styrkst um allt að 1,5% og fór gengisvísitalan um tíma í morgun undir 170 stig. Gengisvísitalan er nú 174,7 stig en gjaldeyrismarkaðir eru enn opnir.