Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,55% og er 6.336 stig við lok dags, samkvæmt upplýsingum frá Markaðvakt Mentis. Veltan nam 3.678 milljónum króna.

Avion Group hækkaði um 4,08% en félagið tilkynnti í morgun að það hafi selt Charter & Leisure rekstrarsvið sitt og 51% í Avion Aircraft Trading. Innleystur söluhagnaður fyrir skatta nemur 107 milljón dollara fyrir Charter & Leisure og 47 milljón dollara fyrir Avion Aircraft Trading. Þá hækkaði Exista um 0,45% og Alfesca hækkaði um 0,2%.

Flaga Group lækkaði um 3,23%, FL Group lækkaði um 1,74%, Bakkavör Group lækkaði um 1,42%, Straumur-Burðarás lækkaði um 1,21% og Kaupþing banki lækkaði um 1,06%.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,96% og er 119,9 stig við hádegi en gengið veiktist um 2% á föstudaginn er það fór á kreik orðrómur um að Ekstra Bladet myndi birta neikvæða umfjöllun um íslensku útrásina.

?Blaðagreinin danska reyndist hins vegar hvorki fugl né fiskur og gengi krónunnar hefur hækkað talsvert í dag sem gefur jafnframt til kynna að söluhliðin á gjaldeyrismarkaði sé áfram sterk,"segir greiningardeild Glitnis.