Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 2,6% í dag og stóð við lok markaða í 585stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan lækkaði um 34,6% í gær eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Straum og hafði lækkað um tæp 3% um klukkutíma eftir opnun.  Þá fór hún að hækka lítillega á ný og hafði sem fyrr segir lækkað um 2,65 í lok dags.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði hins vegar um 0,3% í dag og stendur nú í 224 stigum en í gær lækkaði vísitalan um 15,5%.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en Bakkavör leiddi lækkanir þegar félagið lækkaði um 4,4% í dag. Þá lækkaði Össur um 2,8%.

Century Aluminum hækkaði hins vegar um 22,5%, mest allra félaga. Félagið hefur engu að síður lækkað um 18,2% s.l. sjö viðskiptadaga og um 84,8% frá áramótum.

Þá hækkaði Föroya banki um 1,5%. Þetta er annar dagurinn í röð sem félagið hækkar en í gær var það eina félagið í Kauphöllinni sem hækkaði. Þá má geta þess að frá og með morgundeginum mun Föryoa banki taka sæti Straums í OMXI6 vísitölunni eins og greint var frá fyrr í dag.

Velta með hlutabréf var um 140 milljónir króna en þar af voru rúmar 86 milljónir með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir rúmar 48 milljónir króna með bréf í Marel en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf nam í dag rétt rúmum 9,7 milljörðum króna.