Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 1,4% í dag og stóð við lok markaða í 571 stigi samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan lækkaði um 3,2% í gær en hækkaði hins vegar jafnt og þétt í allan dag.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) hækkaði um 1,1% í dag og stendur nú í 221 stigi.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni en Century Aluminum, sem lækkaði mest félaga síðustu þrjá daga, leiddi hækkanir dagsins með því að hækka um 12,4%.

Félagið hefur þá hækkað um 42,5% í þessari viku en engu að síður lækkað um 81,7% frá áramótum, mest allra félaga.

Aðeins eitt félag, Bakkavör, lækkaði í dag en félagið lækkaði um 0,7% og hefur því lækkað um 21,7% í þessari viku, mest allra félaga í Kauphöllinni.

Velta með hlutabréf var um 157 milljónir króna en þar af voru tæpar 143 milljónir með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir tæpar 10 milljónir króna með bréf í Marel en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf nam í dag rúmum 13,3 milljörðum króna.