Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 0,5% í dag og stóð við lok markaða í 820 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni.

Vísitalan lækkaði um 1,9% í gær og hélt áfram að lækka í morgun. Undir hádegi hafði vísitalan lækkað um 1,4% en hækkaði þó aftur eftir hádegi.

Gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) lækkaði einnig um 0,5% og stendur nú í 269 stigum.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga í Kauphöllinni. Eimskipafélagið rauk upp í dag um 36,4% en viðskipti með bréf í félaginu námu um 400 þúsund. Félagið hefur þó engu að síður lækkað um 16,7% síðustu sjö viðskiptadaga.

Century Aluminum leiddi hins vegar lækkanir dagsins og lækkaði um 29,4%.

Velta með hlutabréf var um 310 milljónir króna, sem er nokkuð meira en verið hefur síðustu viku, en þar af voru tæpar 155 milljónir með bréf í Össur.

Þá var velta fyrir tæpar 86 milljónir króna með bréf í Marel og tæpar 66 milljónir króna með bréf í Straum en mun minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Velta með skuldabréf nam í dag tæpum 8,9 milljörðum króna.