Lítil breyting varð á Úrvalsvísitölunni í viðskiptum dagsins og lækkaði vísitalan um 0,14%.

Dagsbrún hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni, eða um 6,8%, eftir að tilkynnt var um að félagið hefði tryggt sér hlut 38% hlut Símans og Exista í Kögun fyrir 5,5 milljarða króna.

Mest lækkaði Avion Group eða um 2,7%, en félagið hefur verið bendlað við fjármálaóreglu í breska fyrirtækinu Alpha Airports í breskum fjölmiðlum. Stjórnendur Alpha hafa sagt upp störfum hjá félaginu, en endurskoðunar og ráðgjafarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers neitaði að samþykkja uppgjör félagsins fyrir árið í fyrra.

Avion Group hefur sagt að félagið hafi ekki haft vitneskju um fjármálaóreglu Alpha Airports.

Gengi krónunnar veiktist í viðskiptum á millibankamarkaði í dag um 0,52% og stöðvaðist gengisvísitalan í 125,35 stigum. Krónan hafði styrkst á hádegi en síðan fór að grafa undan styrk hennar. Töluvert flökt hefur verið á gengi krónunnar síðustu daga.