Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,61% í dag og er 5.619,40 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Fjögur fyrirtæki hækkuðu í dag, upphæð viðskipta með einstakt félag sem hækkaði fór hæst í 1,3 milljón og fjöldi viðskipta var á bilinu einn til tveir.

Flaga Group hækkaði um 3,94%, Vinnslustöðin hækkaði um 1,19% í 210 þúsund króna viðskiptum, Nýherji hækkaði um 0,72% og Marel hækkaði um 0,55%.

Dagsbrún lækkaði um 5,84%, FL Group lækkaði um 5,39% en Hannes Smárason forstjóri fyrirtækisins bætti við sig 4,73% hlut og á nú 23,63% hlut í félaginu - tilkynnt var um vipskiptin seinni partinn í dag, Landsbankinn lækkaði 4,31%, Kaupþing banki lækkaði um 3,38% og Glitnir lækkaði um 2,87%.

Gengi krónunnar veiktist um 0,46% og er 129,12 stig, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum. Dollari stóð í stað en evra hækkaði um 0,58% gagnvart krónu.