Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hækkaði í dag um 1,5% og stóð við lok markaða í 4.117 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga en athygli vekur mikil lækkun Eimskipafélags Íslands [ HFEIM ] nú seinni part dags en við lok markaða hafði félagið lækkað um 16,5%. Velta með bréf í Eimskipafélaginu var um 52,6 milljónir í dag.

Úrvalsvísitalan hækkaði fljótlega við opnun í morgun en gaf örlítið eftir seinni part dags.

Velta með hlutabréf var um 5,4 milljarðar. Þar af voru um 1,9 milljarðar með bréf í Glitni [ GLB ], rúmlega 1,4 milljarðar með bréf í Atorku [ ATOR ], um 760 milljónir með bréf í Kaupþing [ KAUP ] og tæpar 620 milljónir með bréf í Landsbankanum [ LAIS ] en minni velta var með bréf í öðrum félögum.

Krónan hefur nú veikst um 1,5% frá opnun í morgun og er gengisvísitalan nú 166,2 stig. Gjaldeyrismarkaðir eru þó enn opnir.