Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkaði um 2,1% í dag og var við lok markaða 4.307 stig samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði strax við opnun í morgun og fór lækkandi jafnt og þétt yfir daginn en á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í dag en aðeins tvö félög, Eik banki [ FO-EIK ] og Icelandair Group [ ICEAIR ] - sem kynnti sex mánaða uppgjör sitt í morgun – hækkuðu í dag.

Velta með hlutabréf var tæplega 1,8 milljarðar. Þar af voru tæplega 620 milljónir með bréf í Kaupþing [ KAUP ], um 400 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ], um 220 milljónir með bréf í Exista [ EXISTA ] og tæplega 190 milljónir með bréf í Landsbankanum [ LAIS ] en talsvert minni velta var með önnur félög.

Þá hefur krónan veikst um 0,8% frá opnun gjaldeyrismarkaða í morgun og stendur gengisvísitalan nú í 159 stigum.