Úrvalsvísitalan lækkaði í dag um 38,9% og stóð við lok markaða í 403 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,2% gær, og stóð við lok markaða í 660 stigum, en tók skarpa dýfu niður á við strax við opnun í morgun og hreyfðist lítið eftir það.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga en það voru Straumur og Exista sem drógu Úrvalsvísitöluna svo verulega niður sem raun ber vitni.

Í dag voru heimiluð viðskipta á ný með fyrrnefnd félög í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði, eða eftir að Fjármálaeftirlitið stöðvaði viðskipti með öll fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni þann 6. Október s.l.

Exista lækkaði strax um morgun og hafði við lokun markaða lækkað um 97%. Þannig hefur félagið lækkað um 99,3% frá áramótum, mest allra félaga í Kauphöllinni.

Velta með bréf í félaginu var um 4,2 milljónir króna.

Straumur lækkaði einnig töluvert eða um 58,9%. Þannig hefur félagið lækkað um 80% frá áramótum.

Mesta veltan með bréf Exista

Heildarvelta með hlutabréf var í dag um 370 milljónir króna en þar af voru rétt rúmar 125 milljónir króna með bréf í Straum.

Þá var velta fyrir um 122 milljónir króna með bréf í Marel, tæpar 58 milljónir króna með bréf í Össur  og tæpar 37 milljónir króna með bréf í Bakkavör.