Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,09% í viðskiptum dagsins og er 5.535,20 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Einungis tvö fyrirtæki hækkuðu, Nýherji hækkaði um 2,16% og Grandi hækkaði um 1,25%.

"Engar sérstakar fréttir drifu markaði til lækkunar í dag, en sem fyrr er fremur döpur stemmning ríkjandi og bjartsýni hefur vikið fyrir almennri svartsýni. Hugsanlegt er að skýrsla Barclays um stöðu íslensku bankana, sem birt var á miðvikudaginn, sé enn ofarlega í huga manna," segir greiningardeild Landsbankans.

FL Group lækkaði mest, eða um 4,81%, þá lækkaði Landsbankinn um 4,26%, Dagsbrún lækkaði um 3,22%, Hampiðjan lækkaði um 2,86% og Glitnir lækkaði um 2,35%.

Gengi krónunnar veiktist um 1,75% í dag og er 131,10 stig, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Landsbankans.

"Líta þarf aftur til maí 2002 til þess að sjá vísitöluna í því gildi sem hún endaði í í dag," segir greiningardeild Landsbankans.

Dollar hækkaði um 0,61% gagnvart krónu og evra hækkaði um 1,97% gagnvart krónu.